Turkish cafe og te

Turkish Cafe er staðsett við hliðina á fjögurra stjörnu hótelinu okkar. Við erum búin að fara þangað tvisvar til að drekka í okkur tyrkneska stemmningu og átta okkur betur á hugsunarhætti innfæddra. Margir eru að spila þar, m.a. Backgammon og eitthvert spil sem virkar eins og sambland af Scrabble og Dominos. Við eigum eftir að komast að því út á hvað þetta spil gengur. Ég hef haft einstaka ánægju af því að upplifa te-menninguna hér í Tyrklandi, þar sem ég drekk ekki kaffi. Hér kemur teið í stórum staup-glösum og er sterkt og gott. Þegar maður fær sér te hjá Murat á Café Culture þá fær maður teketil með vatni og tepoka með. Ég verð að muna að biðja Murat að innleiða tyrknesku aðferðina á afgreiðslu á tei – hún er miklu skemmtilegri.

Annars erum við búin að njóta þess að vera hér í dag. Þetta er skrifað á sunnudagskvöldi. Hótelið er frábært og í raun erfitt að ímynda sér að við getum leikið sannfærandi innflytjendur í Tyrklandi á fjögurra stjörnu hóteli (eða fimm stjörnu, það eru misvísandi upplýsingar í gangi) með brosandi þjóna um alla ganga. Svo var mjög ánægjulegt að prófa þetta "spa" sem er í kjallaranum. Ég nýtti mér tækifærið og fór í nudd, einhvers konar líkamsskrúbbun. Það var mjög þægilegt. Svo fengum við margréttaðan kvöldverð á eftir. Það er eiginlega óskiljanlegt að skipuleggjendur prógrammsins hafi ákveðið að setja okkur á þetta hótel. Eiginlega svipað og að vera innflytjandi á Íslandi og búa á hótel Nordica, ekki eins og íbúar á Íslandi geri það almennt (nema kannski útrásarfólk sem býr allajafna í Lundúnum - hver veit..).

Það hlýtur þó eitthvað að búa undir. Við reynum að búa okkur undir það versta á morgun, en jafnframt njóta stundarinnar vel. 

kveðja

Einar 

So far so good

Aðfaranótt sunnudags. Fyrstu kynni af Tyrklandi voru mjög jákvæð. Við flugum með Turkish Airlines frá London til Istanbul. Flott vél, frábær þjónusta og við skemmtum okkur við að horfa á góðar tyrkneskar bíómyndir á leiðinni. Á flugvellinum sáust fyrstu merki þess að maður var kominn út fyrir sitt hefðbundna svæði því þarna reykja menn út um allt. Stuðningsmenn liðsins Fenerbache settu mikinn svip á flugstöðina. Þeir voru á heimleið af leik sem þeir höfðu unnið og sungu fullum hálsi.

Við flugum nú til Antalya aftur með Turkish Airlines og aftur flott vél og frábær þjónusta. Ég mæli heilshugar með þessu flugfélagi. Á leiðinni sátum við og gleyptum í okkur “Sky life” flugtímaritið, sem er samhliða á tyrknesku og ensku.  Við ætluðum aldeilis að ná forskoti á tyrkneskuna til að koma vel út í myndinni sem verður gerð um þetta ævintýri okkar. Við lærðum fullt af orðum, sem gleymdumst jafn óðum og gerðum margar málfræði-uppgötvanir, sem afsönnuðust eftir því sem leið á lesturinn. Eftir stendur að Tyrkland er ótrúlega spennandi land og öðru fremur Antalya þar sem við erum að fara. Samkvæmt blaðinu er Antalya hérað auðugast allra héraða Tyrklands af sögulegum minjum. Hér eru minjar svo gamlar að, skoðað í samhengi við Íslandssöguna, er ekki nokkur leið að átta sig á því.

Ég tek hlutverk mitt sem innflytjanda í Tyrklandi mjög alvarlega og mér fannst virkilega óþægilegt að kunna ekki lágmarks kurteisi á tyrknesku, svo sem “góða  nótt”, “takk fyrir”, “gott kvöld” og þess háttar. Áður en ég fór hingað þá svindlaði ég reynar aðeins. Ég fór og talaði við Murat, sem rekur Café Kulture á fyrstu hæðinni í Alþjóðahúsinu. Hann er Tyrki og kenndi mér það allra nauðsynlegasta, sem ég gleymdi auðvitað strax, nema hvernig á að segja “takk”. Það er einfaldlega “sál”. Svo ég hef sagt “sál” alveg hægri vinsti, sem hefur verið svolítið skrítið fyrir mig því maðurinn minn heitir Saúl og þetta hefur minnt mig óþægilega mikið á fjarveru frá honum og litla stráknum okkar, sem ég sakna mikið. En það er bara raunveruleikinn sem innflytjendur frá Austur Evrópu og löndum utan Evrópu þurfa að horfast í augu við heima á Íslandi. Þeir mega ekki taka fjölskylduna með sér fyrsta árið sem þeir eru á Íslandi. Ég verð þó bara aðskilin frá manni og barni í eina viku. Mér varð hugsað til konu sem ég hef verið að aðstoða í Alþjóðahúsinu sem var langt að komin. Hún hafið þurft að skilja barnið sitt eftir heima hjá aldraðri og veikri móður sinni fyrsta árið en var loks komin með barnið til Íslands. Þá átti hún í mestu erfiðleikum með að sanna að hún færi með forræði yfir þessu barni, því í hennar heimalandi er forræði ekki jafn formlegt og hjá okkur. Af hverju geta innflytjendur ekki tekið börn og maka á sínu framfæri með sér um leið og þeir koma?  Af hverju þarf að láta þá vera eina í heilt ár áður en þeir geta það? Fyrir lagabreytinguna sem varð gerð fyrir nokkrum árum gátu þeir gert það. Af hverju var því breytt? Hvað voru alþingismennirnir sem samþykktu þessa lagabreytingu að hugsa? Ég veit það ekki.

Annars er ég mjög spennt að takast á við prógrammið sem er framundan. Þetta verður örugglega erfitt en ég er viss um að þetta verður gaman líka.

kveðja

Gerður


Í góðu yfirlæti á Heathrow

Þá er ferðalagið og svaðilförin hafin. Við sitjum inni í flugstöðinni á Heathrow flugvelli og látum fara  vel um okkur. Framundan er flug til Istanbúl (Miklagarðs) og þaðan til Antalya. Þar mun fara fram strangt námskeið í tyrknesku og tyrkneskum háttum og við munum fylla út dvalarleyfisumsóknir á tyrknesku og verða boðuð í viðtöl hjá tyrkneska útlendingaeftirlitinu. Við vitum samt lítið um það sem er framundan og munum án efa koma til baka reynslunni ríkari. Okkur skilst að það verði hópur Íslendinga á sömu slóðum á vegum íslenskrar ferðaskrifstofu á sama tíma, en það er nú ekki víst að við rekumst á þá. Gerður þykist betur í stakk búin að mæta álaginu sem er framundan, því að hún er þrautþjálfuð og hálærð með mastersgráðu í mannfræði og hefur auk þess upplifað að vera innflytjandi í Nicaragua. Ég hef nú ekki mikla aðlögunarhæfni sjálfur, hef þó átt tvær tengdamæður og það gekk vel að mestu leyti og svo þyki ég viðmótsþýður og viðræðugóður. Það kemur þó í ljós hver verður þrautgóður á raunastund.

Fróðleiksmoli dagsins: Marhaba þýðir góðan daginn.

kveðja

Einar (og Gerður biður að heilsa) 


Innflytjendur í Tyrklandi - í eina viku!

Innflytjendur í Tyrklandi. Það hljómar leyndardómsfullt, en í stuttu máli gengur verkefnið út á það að láta þá sem vinna með innflytjendum, bæði tungumálakennara og sérfræðinga / ráðgjafa, setja sig í spor innflytjenda. Þess vegna munum við fara til Tyrklands og fara á tyrkneskunámskeið á tyrknesku, svo fáum við samfélagsfræðslu bæði á tyrknesku og ensku, förum í viðtal hjá útlendingastofnun þeirra Tyrkja og endum svo á munnlegu og skriflegu prófi í tyrknesku. Allt þetta er kvikmyndað, með viðtölum fyrir, á meðan og á eftir um væntingar, vonir og vonbrygði. Myndin verður svo kynnt á ráðstefnu í Hollandi í maí og síðan sýnd víða um Evrópu. Þetta er allt borgað af ESB í gegnum Grundtvig áætlunina sem er hluti af Sókrates. Þátttakendur í verkefninu eru frá Íslandi, Hollandi, Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Spáni, Ítalíu og Tyrklandi. Fyrirmyndin er ferð sem stjórnandi verkefnisins fór með hollenska kollega sína í. Hann er frá Morokkó og fór með nokkra tungumálakennara innflytjenda til Morokkó og setti þá á arabískunámskeið. Þetta hafið mikil áhrif á þátttakendu og breytti viðhorfi þeirra til nemenda sinna og kennsluháttum þeirra. Sú mynd, sem heitir “Newcomers in Morocco” hefur fengið verðlaun frá ESB og frá Hollenska menntamálaráðuneytinu.

kveðja,

Gerður 

 

« Fyrri síða

Um bloggið

Tyrklandsferð

Höfundur

Innflytjendur í Tyrklandi
Innflytjendur í Tyrklandi
Starfsmenn Alþjóðahúss, Einar og Gerður, voru í hlutverki innflytjenda í Tyrklandi.

Færsluflokkar

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Logan flugvöllurinn
  • Gerður útskrifast
  • Einar útskrifast
  • Ég
  • Gerður reisir fót

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 225

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband