24.2.2007 | 00:40
Á leiðinni
Kannski gefst mér tækifæri til að skoða þetta betur í ferðinni, þegar við förum í heimsóknir til hinna ýmsu stofnana sem hafa eftirlit með innflytjendum í Bandaríkjunum.
kveðja,
EinarFerðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.2.2007 | 00:38
Kominn aftur af stað
Fyrst ég er aftur kominn af stað í ferðalag á vegum Alþjóðahússins, ákvað ég að bæta við færslum. Verð að sjá til hvað það gefst mikill tími til þess, en vonandi tekst mér að henda inn molum við og við. Ferðin verður löng eða þrjár vikur og leiðin liggur til fimm borga í Bandaríkjunum. Ég verð hluti af fimmtán manna hóp, sem kemur frá mismunandi löndum í Evrópu, en allir þátttakendur tengjast málefnum innflytjenda með einhverjum hætti. Nú sit ég hér á flugvellinum í Boston, nýkominn úr flugi með Flugleiðum og bíð eftir tengiflugi til Washington DC. Læði líka inn stuttum pistli sem ég skrifaði í flugvélinni áðan og svo kemur bara í ljós hvenær næsti pistill kemur.
kveðja,
Einar Skúlason
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2006 | 01:14
Að lokum
Þá er þessi ferð búin og ég komin heim aftur. Það er nú gott að vera komin í umhverfi þar sem ég get haft áreynslulaus samskipti við alla. Núna fer kvikmyndafólkið heim og býr til 20-30 mínútna langa mynd um þetta ævintýri. Hún verður á DVD og eitthvað af aukaefni með. Við hin erum að safna saman efni um aðlögunn innflytjenda sem verður gefið út í bók sem mun fylgja disknum þegar hann verður gefinn út.
Myndin verður frumsýnd á ráðstefnu í Hollandi í mars á næsta ári. Hún verður opin öllum og þeir sem vinna að menntamálum geta meira að segja fengið styrk til að fara á hana, úr Grundtvig prógramminu (www.ask.hi.is), því sama og styrkir þetta verkefni okkar. Í Hollandi munum við fá eintak sem við komum svo með heim og ætlum að sýna út um allt. Því tilgangurinn með þessu verkefni er ekki bara að búa til mynd, heldur að nota hana til að skapa umræðu um aðlögun innflytjenda.
Það sem er mér efst í huga núna er hvað Tyrkir virðast vera skemmtilegt fólk og alveg ótrúlega hjálpsamir og opnir. Einar eignaðist marga vini í ferðinni bara með því að svífa á fólk og telja fyrir það upp á 10 á tyrknesku! Ég ætla að reyna að halda tyrkneskunni minni við, því ég kann alveg helling þótt ég hafi fallið með skömm á prófinu. Og mig langar að ferðast um Tyrkland því það er svo margt spennandi þar.
Ég er búin að læra heilmikið ekki bara í Tyrknesku, heldur líka um það hvað hægt er að gera til að auðvelda aðlögun innflytjenda að samfélaginu og hvað er gert vel og hvað illa í öllumm hinum löndunumm sem eru þátttakendur í þessu verkefni. Það er gífurlega mikilægt að geta hitt aðra sem eru að vinna að málefnum innflytjenda og skiptast á skoðunum og upplýsingum. Við komum heim úr þessari ferð með fullt af hugmyndum sem munu nýtast okkur í vinnuni í Alþjóðahúsinu.
Görusuruz,
Tyrkja Gerður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.4.2006 | 16:51
Fallinn, með 4,7
Niðurstaðan var sú sama fyrir flesta. Ætli það hafi ekki verið um 25% þátttakenda sem stóðust kröfurnar. Þannig að þetta er nú ekki alltof slæm niðurstaða að hafa verið við það að ná. En náði samt ekki og fer af stað heim á leið í fyrramálið.
Þegar ég renndi yfir prófið þá sá ég að stafsetningarvillurnar höfðu orðið mér að falli, að kunna ekki að skrifa orðin nákvæmlega rétt. Jæja, maður getur velt sér upp úr þessu endalaust, en niðurstaðan er samt á þessa lund.
Fólk brást ágætlega við. Þeir voru auðvitað ánægðir sem náðu, en hinir tóku þessu með jafnaðargeði. Ímynda mér að tungumálakennararnir bölvi þó í hljóði (þó ekki á tyrknesku, því við lærðum það ekki...).
Ég geri mér samt miklu betur grein fyrir því hvað það er mikið átak að byrja að læra nýtt tungumál frá grunni og skil betur aðstöðu þeirra sem glíma við íslenskuna. Held að það skipti mestu í þeim efnum að nálgast hvern einstakling út frá hans þörfum og kenna íslenskuna út frá hans reynsluheimi og þekkingu.
Bestu kveðjur frá Antalya
Einar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2006 | 21:59
Munnlegt og skriflegt próf í tyrknesku
Í dag var síðasti tíminn í tyrknesku. Ég hafði vonað að kennarinn færi bara yfir það sem við lærðum í gær til að festa það aðeins betur í mynni. En hún kom bara með fullt af nýjum hlutum eins og dagar, mánuðir, klukkan, líkamshlutar og svo framvegis og svo framvegis. Þegar hún byrjaði á klukkunni þá datt ég endanlega út. Finnska konan við hliðina á mér missti þolinmæðina, fletti upp í orðabókinni á hratt og reyndi að segja kennaranum að hún færi of hratt yfir, en án árangurs. Þá fletti ég upp á endurtaka og bað hana að endurtaka í gær en það kom bara svipur á hana og hún hélt sínu striki. Þá hætti ég að nenna að fylgjast með lengur. Ein norsk kona vildi bakka okkur upp og fann orðið erfitt, sem við héldum að við hefðum lært daginn áður. Hún kallaði á kennarann og sagði sikitdim og allur bekkurinn tók undir það. Kennarinn varð hálf skrítin en hélt svo bara áfram að kenna. Við fréttum svo um kvöldið að við höfðum öll misskilið orðið daginn áður og það þýddi ekki erfitt heldur leiðinlegt. Svo Hanne hafði sagt beint framan í kennarann að kennslan væri leiðinleg.... Engin furða að hún yrði hálf skrítin á svipinn.
Það var reyndar skemmtilegt hvernig hún kenndi okkur líkamspartana, en það er bara svo svakalega ónauðsynleg þekking. Ég þarf að læra hvenig ég segi afsakið, ég skil ekki, hvað kostar þetta og allt það. En ég tala mjög sjaldan um nefið á mér eða eyrun og þurfi ég að tala um þau þá hef ég þau alltaf með mér og get bent á þau ef ég kann ekki orðin. Þarna fékk ég svo sannarlega að reyna á sjálfri mér það sem ég hef svo sem vitað, að ef tungumálakennslan tengist ekki daglegum þörfum nemendana þá missa þeir áhugan og hvatann til að læra mjög fljótt. Þess vegna erum við í Alþjóðahúsinu alltaf að reka áróður fyrir starfstengdri íslenskukennslu þar sem fólk lærir þann orðaforða sem það þarf á að halda um leið og það labbar út úr tímanum.
Svo kom prófið. Fyrst urðu nokkrir að lesa flókinn texta á tyrknesku fyrir framan myndavélina. Það var ekki beint til prófs heldur meira svona fyrir heimildamyndina sem er verið að gera um þessa ferð. Ég slapp þar en Einar þurfti að fara upp og stóð sig mjög vel.
Svo kom skriflegt próf. Ég þurfti að fylla út eyðublað þar sem var spurt um nafn, atvinnu, hjúskaparstöðu og þess háttar. Ég gat litlu svarað, þótt þetta væri ekki fókið. Mér varð hugsasð til eyðublaðana frá Útlendingastofnun sem innflytjendur heima þurfa að fylla út og eru hræðilega flókin og löng. Svo var spurt um líkamshluta, sem ég hafði lært 30 mínútum áður, en mundi ekki einn einasta. Svo komu númer, en ég hafði aðeins lært upp að 10 svo ég gat lítið þar. Á morgun fáum við einkunir og ég hlakka ekkert sérstaklega til. Eiginlega kann ég ekkert nema að telja upp að 10 og beitti til þess aðferð sem ég lærði af einni ítalskri hér á námskeiðinu. Ég tengdi hvern tölustað við orð og svo bjó ég til setningu úr því öllu. Setningin fyrir tyrknesku tölustafina er þessi: Bjór ekki, en uxa, skítugan, beislitan og haltan eða Jedi, sexý sem ræður sudoku hann er on. Tölustafirnir eru svona: Bir, iki, ug, dört, beis, alti, yedi, sekiz, dokuz, on.
Kveðja,
Gerður
Bloggar | Breytt 3.5.2006 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2006 | 16:51
Að loknu prófi
Annars finnst mér ég hafa lært frekar mikið í tyrknesku á stuttum tíma. Mér finnst eins og ég hafi möguleika á að ná góðum tökum á málinu á nokkrum árum. Það ber þó að hafa í huga að ég hef góðar forsendur til þess. Var í skóla í samtals ca. 18 ár og veit því nokkuð hvað þarf til að tileinka sér nýja þekkingu. Ég er líka enn tiltölulega ungur og hef meiri hæfni til að læra eitthvað nýtt en til dæmis elstu þátttakendurnir á þessu námskeiði, sem eru á fimmtugs og sextugsaldri. Það er þó ekki eðlilegt að miða við þátttakendur á þessu námskeiði sem eitthvað norm, allir eru langskólagengnir og nokkrir starfa sem tungumálakennarar. Fólk ætti því að hafa einhverja hugmynd um hvernig eigi að tileinka sér nýtt tungumál á stuttum tíma. En miðað við kvartanir, þá virðast margir eiga erfitt. En Fulya, tyrkneskukennarinn okkar, hefur tekið vel á málum og kennt hratt og örugglega.
Kveðja
Einar
P.S.
Nokkrir fróðleiksmolar.
Kalem: penni (klikkaði á því á prófinu í dag)
Dudak: varir (ég svaraði því rétt!)
Jilet: rakvélablað (borið fram sem gilette)
Kitap: bók (var líka með það rétt)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2006 | 15:56
Samræður á Tyrknesku!
Mér tókst það! Loksins tókst mér að hafa raunveruleg samskipti á tyrknesku. Mig vantaði plástur á hælsærin mín og fór í apótek áðan, horfði ákveðið á afgreiðslumanninn og sagði plaster (þetta er eina orðið í tyrknesku sem er eitthvað líkt íslensku). Hann hikaði augnablik, en rétti mér svo plástur. Ég var mjög stolt og glöð.
Annars hefur dagurinn verið hræðilega erfiður, en líka spennandi og skemmtilegur. Fyrir hádegi fengum við 3 tíma kennslu í tyrknesku, á tyrknesku. Kennarinn var góður, þótt hún færi allt of hratt yfir efnið, en það hafa tungumálakennarar tilhneyingu til að gera, ekki satt? Stafrófið var ekki svo erfitt, bara nokkrir óþekktir stafir þar, en þegar hún fór í tölustafina datt ég út. Ég var ekki búin að ná einum einasta staf af 1 10 þegar hún var rokin í 20, 30, 40 og svo framvegis. Þegar ég var svo tekin upp á töflu og átti að skrifa einhverja tölu sem hún nefndi, þá leið mér eins og fávita. Ég er nefninlega gáfuð, vel menntuð, fjölhæf kona og var að gera mitt allra besta en ég gat ekki lært að telja.... Ég var búin að búa mig undir þetta áður en ég kom, en samt var þetta hræðilega erfitt. Flestir aðrir í hópnum voru í svipaðri stöðu og ég, en það hjálpaði mér ekkert. Sjálfstraust mitt hafði beðið hnekki.
Skólinn okkar er jafnframt grunnskóli með 1.200 nemendum. Þegar við fórum út á skólalóðina eftir tímann þyrptust krakkarnir að okkur og vildu fá að vita allt um okkur. Mig langaði ekkert að tala meiri tyrknesku, vildi bara fara heim að sofa, en þau létu okkur ekki í friði og kröfðust þess að hafa skamskipti við okkur. Þótt enskukunnátta þeirra væri umtalsvert meiri en tyrkneskukunnátta mín þá dugði það okkur ekki og áður en ég vissi var ég búin að draga upp kennsluefnið frá því um morguninn og farin að segja þeim allt um sjáfa mig. Þetta var miklu skemmtilegra heldur en að sitja í tíma og æfa fyrirframskrifaðar samræður, þetta voru alvöru samræður. Ein stelpa var með ensk-tyrkneska orðabók og jók möguleg umræðuefni umtalsvert. Mörg þessara barna tala þýsku og sum önnur evrópumál, því þau hafa fæðst annarstaðar en flutt til baka til Tyrklands með foreldrum sínum. Þessi börn hjálpuðu við flóknari umræðuefni og þá sannaðist enn og aftur hvað tvítyngd börn eru mikil og mikilvæg auðlynd.
Svo fékk eitthvert þeirra þá frábæru hugmynd að fá eiginhandaráritun hjá okkur..... Þau okkar sem voru bláeigð og ljóshærð voru lang vinsælust. Ég hef skrifað nafnið mitt svona 40 sinnum. Tveir unglinsdrengir færðu mér blóm og mörg þeirra sögðu mér að ég væri falleg. Ég kann vel við þessi börn!
Eftir hádegi fengum við samfélagsfræðslu. Fyrst á tyrknesku og svo á ensku. Mér fannst ég nú skilja bara nokkuð mikið af þessu tyrkneska út frá tölum og myndum sem voru á glærunum, en það kom í ljós þegar við fengum enska þýðingu að ég hafði í raun bara skilið það sem ég vissi fyrir. Sú sem var með samfélagsfræðslu á ensk er frá Norður Írlandi, gift Tyrkja og hefur búið hér lengi. Henni var tíðrætt um það hvað Tyrkir eru hjálpsamir og elskulegir, við ættingja sína en líka við ókunna. Hún hafði verið á markaðnum um morguninn, þurfti að hringja í manninn sinn en hafði gleymt símanum í bílnum. Frekar en að labba út í bíl til að hringja, eins og ég hefði gert, bað hún næsta mann að lána sér símann sinn! Svona er þetta hér.
Í kvöld ætla ég að reyna að læra að telja upp að 10 og segja ég heiti Gerður, ég er frá Íslandi, ég er 36 ára gömu, ég er gift. Þetta er mjög metnaðarfullt hjá mér, ég veit.
Görüsürüz,
Gerður
Bloggar | Breytt 3.5.2006 kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.4.2006 | 16:41
Yfirheyrsla
Við fórum síðan í skólann og skólastjórinn flutti langa ræðu (að sjálfsögðu á tyrknesku) og enginn skildi neitt. Svo kom aðstoðarmaður og fór yfir efni ræðunnar í nokkrum setningum. Væntanlega hefur öllu skrúðmælgi verið sleppt í því og bara farið yfir staðreyndirnar... Það var kallað í mig í skólastofunni og sagt að ég ætti að koma í viðtal. Mér var vísað inn í litla skrifstofu, þar sem að þungbrýn kona sat við borð og mér var vísað til sætis gegnt henni. Við hlið mér settist önnur kona og sagðist vera túlkur og að ég ætti að svara spurningum þungbrýnnu konunnar. Myndatökumennirnir voru ekki fjarri. Svo byrjuðu spurningarnar og smám saman áttaði ég mig á því að þetta var ekkert venjulegt samtal heldur yfirheyrsla og þungbrýna konan virtist efast um flest sem ég sagði. Ég sagði til nafns, hjúskaparstöðu, fæðingarstaðar o.s.frv. Síðan spurði hún um tilgang verunnar í Tyrklandi. Ég var aðeins búinn að velta því fyrir mér og þar sem ég vildi koma vel fyrir, þá sagðist ég vilja starfa að ferðaþjónustu og vinna í því að fjölga ferðamönnum frá Norður-Evrópu til Antalya. Hún sýndi engin svipbrigði, dæsti bara og vísaði mér út. Ég verð að viðurkenna að þetta var erfiðara en ég bjóst við og ég fann hvernig bolurinn límdist við bakið af svita þegar ég labbaði út. Ennþá hef ég ekki fengið nein svör um hvort mér verði veitt leyfi til dvalar í Tyrklandi eða ekki.
Kveðja.
Einar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.4.2006 | 10:49
Fyrstu viðtöl
Hádegi á mánudegi og prógrammið er byrjað. Við erum hérna 25 í allt frá Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Hollandi, Spáni, Ítalíu og Tyrklandi. Tveir frá hverju landi, nema Tyrlandi auðvita, far á tyrkneskunámskeið og þurfa svo að standast munnlegt og skriflegt próf í lokin. Síðan er endalaust verið að kvikmynda viðbrögð okkar við hinu og þessu, væntingar okkar og líðan. Í morgun var ég í fimm manna hópi sem var sendur niður í bæ til að fara í viðtal um væntingar til verkefnisins og hvernig við hefðum undurbúið okkur fyrir það. Svo gengum við um bæinn og Hollenska kvikmyndtökufólkið tók það allt upp líka. Þetta var þræl gaman.
Þegar við komum aftur á hótelið var fundur með öllum þar sem Noureddine, stjórnandi verkefnisins, útskýrði fyrir okku það sem er framunda og lagði ríka áherslu á að við yrðum að taka fullan þátt í öllu prógrammi og mættum ekki gleyma því að við værum innflytjendur í Tyrklandi ekki túristar. Hann endaði fundinn á að segja þegar þið gangið út um þessar dyr þá hættið þið að vera túristar og verðið innflytjendur, þá fór um mig smá hrollur. Þetta er jú hlutverkaleikur og við eigum að taka hann alvarlega.
Okkur var sagt að fara í lobbíið og athuga hvort það væri bréf til okkar þar, en var bannað að opna það. Ég fékk ekkert en Einar fékk bréf. Þau sem fengu bréf voru tekin eitthvert og svo var kvikmyndað þegar þau opnuðu bréfin. Þau voru á tyrknesku og lítið hægt að skilja. Frekar óþægilegt því hver veit nema þetta sé eitthvað mjög mikilvægt. Minnir mig á bréfin sem Útlendingastofnun sendir innflytjendum heima sem svar við umsóknum þeirra um dvalarleyfi. Þau eru á svo flókinni íslensku að ég á oft í mesta basli við að skilja þau og hef samt lesið þau mörg.
Nú þarf ég að hlaupa í skólann.
Gerður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2006 | 10:14
Þjóðhátíðardagur í Tyrklandi
Við fóum í gamla bæinn í dag, sunudag, og gengum um. Við tókum strætó þangað til að komast í návígi við fólk. Hér er fólk svo kurteist að maður er ekki einu sinni rukkaður þegar maður fer í strætó en við erum svo heiðarleg að við borguðum auðvita. Ég var að reyna að sjá eitthvað framandi, með litlum árangri. Þó var maðurinn við hliðina á mér í vagninum að handfjatla talnaband múslima og þá væntanlega að biðja í hljóði.
Við fórum og fengum okkur samloku og te á kaffihúsi við hliðina á gamalli mosku. Þar var slökkt á tónlistinni þegar bænaköllin hófust í moskunni, en Pink Floyd svo sett í botn um leið og bænaköllunum lauk. Eitthvað svolítiði framandi þar. Mig langaði inn í moskuna að skoða, því ég hef aldrei farið í mosku, en ákvað að gera það ekki fyrr en ég hitt tyrknesku konurnar sem taka þátt í þessu verkefni. Ég við ekki sýna vanvirðingu óvart því ég veit ekki hvernig ég á að haga mér í mosku. Maður á að bera virðingu fyrir trúarbrögðum annara, alveg sama hvað manni finnst um þau.
Sölumennirnir hérna eru algjör séní. Alls ekki frekir, en þeir beita svo snilldarlegum aðferðum við að ná athygli manns. Við vorum ákveðin í að láta ekki plata okkur, en einum þeirra tókst samt að láta mig kaupa hálft kíló af hnetu snakki sem mig langaði ekkert í. Ég skal klára það!
Það var hátíðisdagur í dag, bæði þjóðhátíð og hátíð barnana, er mér sagt. Tyrkneski fáninn er út um allt! Allar stofnanir eru með risastóra fána utan á húsunum sínum, allir strætisvagnar og svo hefur fólk hengt fána á svalirnar hjá sér. Mér þætti gaman að sjá þetta heima á hátíðisdögum þetta setur svo skemmtilegann svip á bæinn.
Annars eyddum við stærstum hluta dagsins í að sitja, sötra te og horfa á mannlífið. Hér eru margar konur með slæður, þótt yfirgnæfandi meirihluti sé það ekki. En flestar þeirra bynda slæðuna bara undir hökuna, eins og konur heima gerðu milli 1960 og 1970. Aðrar bynda slæðuna undir hárið að aftan, eins og ég geri þegar ég er í Flatey og nenni ekki að þvo á mér hárið. Ekki svo mikið framandi þar. Það sem helst er framandi er kannski verðlagið. Ég borgaði fimm milljónir fyrir bjórglas......
Kveðja,
Gerður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Tyrklandsferð
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar